Færsluflokkur: Bloggar

Þekkingarleysi ?

Ég hlustaði á viðtal við Ástu(?) hjá Ráðgjafarstofu heimilanna , um það að fólk bæri fyrir sig kunnáttuleysi í fjármálum og þess vegna  væri allt komið í strand hjá þeim , þ.e peningalega. Það er líka vitað mál að fjármálin hafa gífurlega mikil áhrif á allt í okkar persónulega lífi og því margt annað sem fer halloka við það að missa fótanna í fjármálunum.

Ég er alveg sammála því að mun betri upplýsingar mætti veita í sambandi við fjármál, bæði í grunnskólum og framhaldsskólum. Ingólfur H Ingólfsson hefur lagt sitt á vogarskálarnar með að fræða almenning um eitt og annað í fjármálaheiminum , en auðvitað kosta þau námskeið eins og önnur fullorðinsfræðsla og sérstaklega sú sem einstaklingar taka að sér að kenna. Það er gott og blessað sem Ingólfur er að gera og hef ég alltaf gaman að lesa póstinn frá honum á spara.is. Það eru örugglega margir sem hafa áttað sig á hlutunum með hans aðstoð.

En hversu mikla áherslu sem við mögulega gætum sett á fræðslu varðandi peningamál þá er það í þessu efni sem og öðru að ábyrgðin er alltaf hjá okkur sjálfum. Það vita allir ,og við þurfum ekki að fara á námskeið í því , að það að eyða minna þýðir einfaldlega að aurarnir endist lengur. En það er svo auðvelt að tala en erfitt í að komast. Þetta minnir mig á umræðu um offituvandann , það að borða minna þýðir minni fita !

Ég sakna þess sárlega að sjá ekki t.d í skattakerfinu okkar virkilega hvatningu til þess að spara. Það er einföld leið fyrir stjórnendur þessa lands til að hvetja almenning til sparnaðar. Menntakerfið getur komið sterkt inní varðandi það að upplýsa nemendur um hvað það eiginlega þýði að vera t.d ábyrgðarmaður , að vera fjárráða , hvað er fjárnám, gjaldþrot , hvernig kreditkortin virka og geta farið með fjárhaginn , o.fl , o.fl .  Og síðast en ekki hvað síst , hvernig er hægt að spara . Hér komum við að því hversu mikilvægt það er að stjórna heimilinu vel. Stærstu kostnaðarliðir allra heimila í landinu er dagleg framfærsla - matarinnkaup , húsnæði , bíllinn . Og erfiðast reynist það flestum að skera þar niður.

Auk alls þessa  tel ég að fólk fresti því  alltof lengi að horfast í  augu við staðreyndir. Það er erfitt að setjast niður og ákveða hverju verði að sleppa í skemmtun , ferðalögum , fatainnkaupum, áskriftum. Og það er líka erfitt að venja sig á að kaupa ódýrara í matinn, hafa kannski meira fyrir matseldinni og fyrir vikið ná niður matarreikningunum. Og kannski er erfiðast að standa saman í þessu öllu. Að hjón eða par standi saman í því að spara, ákveða hversu háa upphæð er mögulegt að setja í eyðslu heimilisins,barnanna og hvort hjóna fyrir sig. Við megum ekki gleyma því að ábyrgðin er beggja og okkur ber að standa saman ( bæði siðferðilega og lagalega séð ) , styðja hvort annað og hugsa um börnin okkar í sameiningu hvort sem við búum saman eða sundur. - Þó svo að einstaka verslun haldi öðru fram . Það er líka okkar val hvar við eyðum peningunum okkar

 

 


blogg,blogg, bloggidíblogg

Ég er nú að reyna að koma einhverri almennilegri mynd á þessa síðu mína. En hef komist að þeirri niðurstöðu að ég er ekki mikill bloggari. En hef þó gaman af þessu og gaman að lesa aðrar bloggsíður. Svo ég vona að einhverjum þarna úti þyki einhverntíma eitthvað gaman af einhverju frá mér .

Sjálfsagt verður líflegt á bloggsíðum eftir leikinn við Dani í kvöld , ég leyfi mér að spá fram í tímann og að baunarnir jarði okkar menn .  Svartsýn ?  kannski smá. 

 


Símenntun

Það er víst vika símenntunar þessa dagana. Og óhætt að segja að símenntun sé eigi vel við Íslendinga . Allir skólar stútfullir og þjóðin orðin sprenglærð. Eins og einn ágætur maður sagði ; læra,læra,læra - áfangi til betra lífs . Það er eitthvað sem þessi þjóð getur staðfest. Og þó að ekki sé vitið í askana látið er umhverfið orðið þannig að nauðsynlegt er fyrir hverja manneskju að afla sér menntunar og prófa. Þessi vika núna er tileinkuð fólki sem ekki hefur mikla menntun en er hvatt til að bæta þar úr. Margar leiðir eru í boði , lengri og styttri námskeið auk hefðbundinna námsbrauta. Ég er ein af þessum löndum okkar sem er sífellt í einhverju námi. Mér líður hreint illa ef ég er ekki á einhverju námskeiði eða í skóla. Og mér finnst námsþráin hafa aukist jafnt og þétt með árunum! Ég hef lært saum, málun, bókhald, ljósmyndun ,ensku, ferðamálafræði, tekið nokkra tölvuáfanga, farið í endurmenntun í háskóla og er þar reyndar aftur núna. Og til margra ára hef ég verið aðili í félagsskap þar sem við þjálfum ræðumennsku, stjórnun, framkomu,flutning o.fl. Það eru samtök sem kalla sig Power talk eða ITC . Þetta eru að verða 70 ára samtök, stofnuð í Bandaríkjunum og eru starfandi um allan heim. Í fyrstu voru þau til að hvetja konur og byggja upp sjálfstraust hjá þeim en í dag eru þau fyrir bæði kynin og henta öllum hvar svosem fólk er staðsett í lífinu. Auk þess að fá góða þjálfun er þetta líka skemmtilegur félagsskapur .  Deildin sem ég er aðili að fundar í Grafarvoginum , fjórða hvern miðvikudag og ert þú velkomin á fund hvenær sem er !Wink

Kannski eru einhverjir sem velta fyrir sér hvað maður ,,græðir" á því að mennta sig . Því allt virðist snúast um að græða sem mest. Og jú auðvitað græðir maður alltaf á því að læra. Eftilvill er ekki hægt að mæla það í krónum , ekki einu sinni í evrum, en það að kynnast ýmsum fögum, stefnum og kenningum er þroskandi. Auk þess kynnist maður nýju fólki og heyrir jafnvel nýjar hliðar á ýmsum málum. 

Ef þú trúir því ekki þá reyndu það sjálf/ur --- menntun ER skemmtun --- sama hver aldurinn er, bakgrunnurinn eða núverandi staða.


Hundar eiga að vera í bandi .

Þegar eigendur fara út að ganga með hunda sína , sérstaklega í þéttbýli , er ekkert sjálfsagðara en að þeir séu í ól. Það er vitanlega krafa annara í samfélaginu. Við eigum ekki að þurfa að vera hrædd við lausa hunda þegar við fáum okkur göngutúr, hvort sem við erum ein á ferð ,með hundinn okkar eða börnin . Stórir hundar eru oft mjög forvitnir um litlu hundana og hreinlega ráðast að þeim hvort sem þeir ætla sér að leika sér með þá eða drepa þá , það er ekki í okkar valdi að geta sagt um það. Stórir hundar hafa auk þess stærðina , þyngdina og kraftinn sem er mun meiri en hjá flestum okkar þótt við teljumst fullorðin. Ég á sjálf lítinn hund sem hefur gaman af að fara í göngutúra og leika sér í garðinum okkar. Oftar en ekki hef ég þurft að vera á varðbergi hvað varðar stóra hunda sem við hittum og taka litla krílið í fangið vegna láta í þeim stóru. Eigendur virðast oft ekki ráða nægilega við hundinn sinn til að hafa hann lausan. En að hundur vaði inn í garð og ráðist á annað dýr þar er auðvitað skelfilegt. Dettur mér helst í hug að stóri hundurinn hafi ætlað þetta vera kött en eitthvað er um að eigendur ( veit ekkert hvort það eigi við í þessu tilviki )  þjálfi hunda sína í að ráðast gegn köttum , hvað sem okkur finnst svo um slíkt athæfi.

Ég vona að það fari ekki að verða hér eins og hjá konu einni í USA sem ég kannast við en hún fer alltaf með litla kylfu með sér í göngutúra með smáhundinn sinn til að verjast stórum hundum. Hún fór einu sinni mjög illa útúr árás hunds sem leiddi til dauða hennar hunds og meiðsla á henni sjálfri.

En munum að í öllum hundum býr úlfur , sama af hvaða stærð dýrið er.


mbl.is Eigandinn beinbrotnaði og tvísýnt um líf hundsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband